adalvikogsletta

Sléttuhreppur

 

 Sléttuhreppur, á norðanverðum Vestfjörðum, var nyrsti hreppur landsins, hann takmarkaðist af úthafinu í vestur og norður og af Ísafjarðardjúpi og Jökulfjörðum að sunnan og suðaustan. Aðeins einn hinna fimm Jökulfjarða tilheyrði Sléttuhreppi, Hesteyrarfjörður, hinir tilheyrðu Grunnavíkurhreppi. Hreppamörk í Jökulfjörðum voru við Lás, nes sem er á milli Hesteyrarfjarðar og Veiðileysufjarðar, og að norðan á Sigmundarhjalla á  Hornbjargi. Sunnanvert í mynni Jökulfjarðanna er lítil vík sem nefnist Grunnavík, öndvert henni að norðan gengur fram lítið nes og stendur þar bærinn Slétta sem hreppurinn dró nafn sitt af. Slétta var ein mesta kostajörð hreppsins og fór í eyði árið 1947.
Í dag tilheyrir fyrrum Sléttuhreppur Ísafjarðarbæ.

Stærsta víkin í Sléttuhreppi er Aðalvík og liggur hún í  vestur, yst á kjálkanum sem tilheyrir Hornstrandafriðlandi. Hún er sex til sjö km á breidd og álíka löng og horfir víkin til norðvesturs á móti úthafinu. Að sunnan afmarkast hún af fjallinu Rit en að norðan af háu fjalli sem kallast Látrafjall. Undir því er sérkennileg hvilft sem kallast Kvíin. Slíkar hvilftir eða skálar má finna víða á Vestfjörðum. Hún hefur myndast undan svokölluðum skálarjökli sem hreyfist stöðugt í hringi. Þar sem þetta gerist við ströndina líkjast skálarnar helst stuttum dölum. Við þessa hamraskál kenndi Þuríður sundafyllir Kvíarmið í Ísafjarðardjúpi. Norðan við víkina eru Látrar og sunnantil er Sæból.  Utan Látra verður hlíð þessi sæbrött og nefnist Straumneshlíð en ysti oddi fjallsins er lítið nes sem Sraumnes heitir. Fyrir botni víkurinnar eru fjórir dalir. Staðardalur er syðstur, þá Þverdalur, Miðvíkur og Stakkadalur. Norðan Straumness er Rekavík, lítil vík með töluverðu undirlendi. þar er allstórt vatn. Norðaustan Rekavíkur er fjallið Hvesta og aðskilur það víkina frá Fljóti.

Á Látrum og Sæbóli mynduðust vísar að þorpum í tengslum við sjósókn og útgerð og byggðist afkoma íbúanna á gjafmildi sjávarins ásamt landbúnaði. Byggðin á Látrum er á svonefndu Látranesi. Þar var fyrst byggt 1878 eftir að skriðuföll þrengdu að gamla bæjarstæðinu innar undir fjallinu. Árið 1920 voru búsettar þar 18 fjölskyldur, alls um 110 manns. Þar var byggður barnaskóli um aldamótin 1900. Sími kom á Hesteyri árið 1922 og símalína var lögð sama ár þaðan að Látrum og 1939 að Sæbóli.
Síðasti ábúandinn á Látrum flutti þaðan árið 1952.

Aðalvík

Úr bók Gunnars Friðrikssonar. Mannlíf í Aðalvík.

Byggð í Víkinni.
Áður en lengra er haldið finnst mér rétt að gera nokkra grein fyrir byggð á Látrum. Það gefur nokkra hugmynd um hvernig umhorfs var á þessum hjara landsins meðan þar var blómleg byggð um 1920. Eins og margir vita þagðist byggð af þarna nokkrum árum eftir lok heimsstyrjaldarinnar (síðari) og þannig fór raunar fyrir öllum byggðarlögunum á stórum svæðum þessa landshluta.
Hér skal þó geta þeirra fjölskyldna sem bjuggu á Látrum á fyrnnefndum tíma:
Í Látranesi voru, auk foreldra minna og föðurömmu, að jafnaði tíu til tólf manns í heimili.
Í Bjarnabæ, sem stóð rétt fyrir utan bæjarlækinn hjá okkur, bjuggu Bjarni Dósóþeusson og kona hans Bjargey Sigurðardóttir. Þar var einnig í heimili móðir Bjargeyjar, Sigríður Sigurðardóttir, ekkja Sigurðar Gíslasonar, hreppstjóra á Látrum. Börn Bjarna og Bjargeyjar voru tíu en tvö þeirra ólust upp annars staðar. Þar voru alls ellefu manns í heimili.
Ystibær (Hrakningur) en þar bjuggu á þessum tíma Friðrik Finnbogason og kona hans Þórunn Þorbergsdóttir frá Efri-Miðvík ásamt börnum sínum, alls 17 manns.
Vagnsbær. Árið 1924 bjuggu þar fjórir fullorðnir og eitt barn en á árunum 1924 til 1939 fæddust átta börn til viðbótar. Áttu hjónin þá því alls níu börn.
Í verslunarhúsi við sjóinn í Nesinu bjuggu á þessum árum Finnbjörn Þorbergsson frá Efri-Miðvík og kona hans, Helga Kristjánsdóttir. Hún lést 22. júlí 1925 frá fjórum börnum. Þar bjuggu því sex manns.
Í Nesinu og við sjóinn bjuggu því á þessum árum 46 manns og stundum fleiri.
Uppi á brekkunni bjuggu á þessum árum nálægt 90 manns. Á Látrum voru því alls um 136 manns, þegar flest var, en búið var í tuttugu húsum.

Í Rekavík bak Látur er stórt stöðuvatn, Rekavíkurvatn. Milli sjávar og vatns er örmjór bogadreginn sjávarkambur. Gengur brimið yfir kambinn og er rekaviður, sem skolar yfir hann á fjörum, fram með öllu vatninu. Töluverð silungsveiði er í Rekavíkurvatni.
Rekavík fór í eyði árið 1947 er 11 manns fluttu þaðan.

27 nóvember 2011.
Ég var nýverið að lesa Árbók Ferðafélags Íslands um Norður-Ísafjarðarsýslu, bókin er skrifuð af Jóhanni Hjaltasyni, sem um langt skeið var barnakennari og bóndi að Bæjum á Snæfjallaströnd og síðar skólastjóri í Súðavík við Álftafjörð. Í formála bókarinnar er sagt að Jóhann sé flestum mönnum jafnkunnugur staðháttum í hinu víðlenda héraði og beri þar einkum  til að hann vann að örnefnasöfnun fyrir Fornleifafélagið (forveri Fornminjasafns Íslands) á árunum 1932-1940 og ferðaðist hann þá víða um Vestfirði. Bókin er frá árinu 1949 og gefur góða lýsingu á staðháttum og einkum gömlum örnefnum, sem gott er að komandi kynslóðir geymi með sér. Ég leyfi mér að skrifa hér úrdrátt úr kaflanum, til fróðleiks fyrir ykkur, sem segir af Aðalvík og Rekavík bak Látur. Njótið vel.

Riturinn
Riturinn er mikið fjall og víðast allhátt, um 300 m. Nyrðri hluti hans, frá Nál til Skáladals, er þverhnít bjarg í sjó. Til forna var þar töluverð eggja- og fuglatekja allt fram undir 1880, en sigið var þar lengur eða fram um aldamót, en eftirtekja af því fór minnkandi ár frá ári, uns hætt var.
Norðan í Ritnum er bærinn Skáladalur og stendur þar á hárri brekku með grösugu og vel grónu túni allt um kring. Til forna og jafnvel fram um 1920 stóðu þar verbúðir frammi á brekkubrúninni, en varir eru fyrir neðan, þar sem bátar voru settir. Upp frá túninu liggja daladrög tvö lítil, sem  heita Skáladalur og Mannadalur.

Suður-Aðalvík
Fyrir sunnan Skáladal er Skáladalsbjarg og endar í klettabelti því, sem Kirfi heitir. Út frá því ganga lágar klettasnasir í sjó og kallast Sæbólssker. Fyrir innan skerin er Búðanes nefnt, og er þar lending þeirra Sæbólsmanna. Á Sæbóli hefur á seinni árum risið dálítið þorp með 70-80 sálum. Hafa menn lifað þar að mestu á fiskveiðum og smábúskap eða af atvinnu við Hesteyrarstöðina.
Sæból er stór og mikil jörð og hefur þar jafnan margbýlt verið. Nú (1949) er þar aftur að mestu í eyði.
Upp af Sæbóli liggur Garðadalur, en vestan við hann eru Leið og Tindafjall. Suðvestur frá Sæbóli eru mýrar og holt fram að Staðarvatni, en við það að austan er prestsetrið Staður í Aðalvík. Fram af vatninu er Staðardalur og annað dalverpi lítið, er Skarðadalur nefnist.
Upp af Staðarvatni að austan liggja Fannalægðir og Fannalægðafjall, en niður af því Fannadalur, og liggur um hann leiðin til Staðar frá Hesteyri og Sléttu. Staðarvatn er allstórt og rennur úr því Staðará til sjávar. Norður af Stað er hátt fjall er Nasi kallast. Norðan við það er Þverdalur. Fram af honum eru Þverdalsdrög og Litlafell. Fyrir utan dalinn með sjó fram eru Þverdalsgrundir. Norðan að dalnum liggur fjallið Hvarfnúpur. Milli dalsins og núpsins liggja holt með lyngi og smágróðri, og kallast þar Land. Liggur þar um leið fótgangandi manna til Miðvíkna og nyrðri hluta Aðalvíkur.

Miðvíkur
Norðan við Hvarfnúp eru skriður stórar og illar yfirferðar til Miðvíkna. Skriðuföll eru þar tíð að vor- og haustlagi. Upp úr Miðvíkum liggur reiðvegur báðum megin Búrfells suður til Hesteyrar, en Sléttuskarð yfir til Sléttu og Þverdals. Margar smáár og lækir renna niður í Miðvíkur og mynda, er niður kemur, allmikla á, sem Miðvíkurós nefnist.
Í Miðvíkum eru tvær jarðir, Efri-Miðvík og Neðri-Miðvík, sem nú eru báðar í eyði (1949).

Norður-Aðalvík
Norðan að Miðvíkum liggur fjall það, er Mannfjall kallast. Framarlega í því er steindrangur, sem kallaður er Kleifarmaður. Fram úr fjallinu liggur háls, sem Kleifarháls er nefndur. Yfir hann liggur Kleifargata, og má fara hana með hesta. Um fjöru má ríða sanda fyrir framan Kleifina. Norðan við Kleifina er sandfláki, sem heitir Teigur. Liggur hann upp undir Stakkadal og niður að Stakkadalsós. Teigurinn getur verið illur yfirferðar sakir stórra ísstykkja og fanna, sem sandverpast og valda pyttum og íhleypum, nær þiðna.
Á árunum frá 1890 og fram um aldamót, meðan sunnlenski skútuflotinn stundaði sumarfiski úti fyrir Vestfjörðum, komu skip oft inn á Aðalvík eftir ís, og var þá oftast nær haldið til Stakkadalsóss. Var ísinn borinn í pokum ofan til bátanna.
Stakkadalsós er vatnsmikill, enda renna í hann ýmsar ár og lækir. Úti við sjóinn og töluvert upp eftir var ósinn fyrrum illur yfirferðar vegna sandbleytu. Tvö vöð eru þó á honum, og heitir hið neðra Varða eða Vörðuvað og dregur nafn sitt af vörðu, sem hlaðin er á bakkanum, þar sem út í er farið. Hitt er skammt fyrir ofan og nefnist Mjóavað. Ofan við það, neðan við Stakkadalsvatn, er djúpur áll í ósnum, sem Skjónuhylur heitir.
Fyrir utan túnið í Stakkadal eru hólar þrír, og nefnist einn þeirra Stakkhóll, og er mælt, að Stakkur landnámsmaður sé þar heygður. Annar heitir Kistuhóll, og er mælt, að þar séu grafin vopn hans, herklæði og aðrir dýrgripir.
Upp af Stakkadal eru brekkur háar og heita Stakkadalsbrekkur. Er um þær farið til Hesteyrar. Stakkadalsfjall, sem er fram af Stakkadal,  er lágt og fremur slétt ofan, en gróðurlítið, mest berar klappir og aurholt. Víða á klöppunum eru stórir steinar, einstakir, meir en mannhæðar háir, og kallast þeir Fornmannatök. Eru það jökulminjar frá ísöldinni, sem víðar má sjá. Fram af Stakkadal er Reyðardalur og Reyðardalsmúli. Fram úr Reyðardal liggur Dagmálaskarð. Norðan við Reyðardal er Bjarnadalsmúli og Bjarnadalur. Fram af honum til austurs er Fljótsheiði. Er hún stutt, en allhá og liggur um djúpt skarð, milli hárra fjalla, yfir til Fljóts. Bjarnadalsá rennur niður Bjarnadal og fellur í Torfavatn, sem er grunnt vatn og lítið í mynni dalsins.

Frá Stakkadalsós að Látrum er allstórt, lítt gróið sléttlendi, sem Melur heitir.
Teigur og Melur ullu fyrrum miklu tjóni vegna sandfoks á tún og engjar á Látrum og Stakkadal. Látur, sem var dálítið þorp til skamms tíma, stendur við víkurbotninn að norðaustan. Þar er undirlendi lítið undir allháu og bröttu fjalli með kletta í brúnum, og er það innri eða syðri endi Straumnesfjalls. Upp frá sjónum er Hábrekka kölluð, og stóðu þar fyrrum fiskhjallar Látrabrænda. Upp af brekkunni er sléttlendi nokkuð, og er þaðan hin fegursta útsýn vestur yfir Aðalvík til Skáladals, Miðvíkna og Stakkadals.
Upp af byggðinni er Látrafjall. Framan í því eru smálægðir, sem heita Lambadalir, en neðan við þá er fjallið nefnt Hófur. Neðan til í fjallinu norður til Rekavíkur bak Látur liggja hjallar þeir, sem heita Hófhjallar. Fer svo fjallið smálækkandi niður á svonefnda Hálsa, sem mynda mjótt lágt eiði milli Látra og Rekavíkur. Suðuaustur frá Hálsum til Bjarnadals eru Smáhjallar nefndir, en til austurs eru Fljótshjallar upp undir Fljótsheiði, er liggur yfir til Glúmsstaða í Fljóti.
Í hlíðum fjallanna er nokkur gróður af beitilyngi, víði og grasi, en allur er sá gróður smávaxinn og útskagalegur.
Út frá Látrafjalli liggur miðhlíðis hjalli sá, er Leynir heitir, og er hlíðin neðan hans töluvert gróin. Utan við hann eru Svarthamrar, sem svo eru nefndir af vatni því, er sífelldlega seytlar þar fram milli berglaganna, og eru því jafnan dökkir til að sjá. Utan við þá er Landjaðar nefndur, og gengur Látranes þar í sjó út. Er þar malarkambur við sjóinn, en smábergstallar upp af, og er nokkurt bil á milli þeirra. Klettaveggir þrír ganga þar út í sjóinn, og eru skálar tvær eða básar á milli, en bergfláa er niður að fara. Skálar þessar nefnast Réttarbás og Folaldsbás. Fyrrum var sauðfé úr fyrstu göngum á hausti rekið í Réttarbás og dregið þar sundur, og mun nafnið stafa af því. Mælt er, að stóðhross hafi verið réttuð í Folaldsbás, en svo langt er nú síðan, að enginn kann lengur frá því að greina, enda mun jafnan hafa verið lítil stóðeign á þessum slóðum. þar sem landið er lítt eða ekki til þess fallið.
Utan við Landjaðar er fjallshorn hátt, sem Gangar nefnist, og skyggir á Straumneshlíðina hina vestari frá Látrum séð. Út af þeim í sjó er stór klettur, sem Rostungur heitir.
Milli Ganga og Straumnesshlíðar er djúp, stór skál í fjallsbrúnina, og er það Kvíin, sem Kvíarmið á Ísafjarðardjúpi er við kennt. Er það miðið, þegar hún kemur fram undan Ritnum.
Fyrir utan Kvína byrjar Straumnesshlíð. Er hún víðast hvar hamrar, þverhníptir í sjó, um 400 m á hæð. Milli blágrýtislaganna er víðast allþykk surtarbrandslög.
Ysta horn Straumnessins skagar ofurlítið til norðavesturs. Þarna á nestánni, þar sem Goðafoss hinn elsti strandaði forðum, er grjóturð ill með sjó og brött skriðuhlíð fyrir ofan með klettahorni miklu efst. Eftir skriðunum má þó komast fyrir utan klettana og norður í Straumnesdal, sem gengur þar inn í nesið mitt, milli tveggja klettahorna. Upp úr dalnum má komast og inn eftir fjallinu til Látra eða Rekavíkur bak Látur. Norðanvert við Straumnesdal rís hátt fjall og sæbratt, 435 m, með miklum klettum inn með allri austurhlið nessins inn til Ölduldals. Heitir það Skorar og er gengt undir um fjöru.

Rekavík bak Látur
Ytri hluti fjallsins kallast Skorar, en Bæjarfjall hinn innri. Milli fjallshluta þessara gengur dalur upp frá bænum í Rekavík, sem Öldudalur heitir. Er hann með smábrekkum neðan til, en bröttum hlíðum, er ofar dregur. Úr honum má ganga upp á Skorar og þaðan ofan í Straumnessdal. Sunnan við Bæjarfjall, milli þess og Hófsins, er mjór dalur, nefndur Grasdalur. Eftir honum rennur Grasdalsá út í Rekavíkurvatn, sem er allstórt, 2-3 ferkílómetrar, og tekur yfir mestan hluta af undirlendi víkurinnar. Milli vatnsins og sjávarins er mjór malarkambur. Fremst í víkinni er lítið vatn, sem Hálsavatn nefnist, og er hár malarkambur, sem Skammárholt heitir, milli þess og Rekavíkkurvatns. Gegnum kambinn milli vatnanna rennur Skammá. Graslendi er töluverst austanvert við Hálsavatn og kallast Grafahlíð. Þar hefur frá ómmunatíð verið svarðartekja Látrabænda.
Upp af Grafahlíð eru Fossabrekkur, og liggja þær norður til hjalla í fjallinu, sem nefnast Löngutóarhjallar, en niður af þeim er grjóturð ein, sem kallast Hagurð og er beint á móti Grasdal.
Norðan við Fossabrekkur er Fjárdalur og ofan við hann Tunguheiði, sem liggur frá Látrum og Rekavík yfir til Tungu í Fljóti.
Austan að Rekavík liggur hátt, 513m, og bratt fjall, sem Hvesta nefnist og er mjög hömrum sett að norðan. Niður í fjallsbrúnina að norðvestan skerst djúp skál, er heitir Hvestuskál. Þar er vatn eitt lítið í skálinni, er kallast Hvestuvatn. Upp frá Hvestu liggur langur fjallgarður, sem nær alla leið að Tröllaskarði, og heitir hann einu nafni Kjölur.

Saga ættar

Allar menningarþjóðir telja sig þurfa að þekkja fortíð sína. Án vitneskju um fortíðina er nútíminn tómur og merkingarlaus. Í viðleitni okkar við að skilja nútímann er nauðsynlegt að afla sér vitneskju um liðna tíð og reyna að efla skilning sinn á henni.
Saga þeirra sem hér er skráð gefur okkur skilning á því hvernig forfeðrum okkar tókst við erfiðustu skilyrði að lifa öld fram af öld á ströndinni við ysta haf.

Í Sléttuhreppi barðist fólk við óblíða náttúruna og svaðilfarir bæði til lands og sjávar. Byggðin í Sléttuhreppi eyddist smátt og smátt á árunum 1940 - 1950 og fór endanlega í eyði 1. nóvember árið 1952. Síðasti ábúandinn var Sölvi Betúelsson frá Hesteyri, hafði hann  búið þar einn um tveggja ára skeið ásamt konu sinni og vinnukonu.

Sagan er rakin. Sagt er frá lífsháttum fólks og hvernig lífið tók breytingum í tímanna rás. Ljóð verða birt og frásagnir fólks.

Skoðið einnig frábæra vefsíðu. Hornstrandir


 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

title

Click to add text, images, and other content

title

Click to add text, images, and other content

Google Translator

:)

Recent Forum Posts

No recent posts