adalvikogsletta

Fridrik Geirmundss. og Mikkalína Þ.

Friðrik Geirmundsson var fæddur í Efri - Miðvík í Aðalvík 25. júlí 1891. Hann var sonur Geirmundar Guðmundssonar, sem var síðasti bóndi á Atlastöðum í Fljótavík, og konu hans Sigurlínu Friðriksdóttur. Friðrik ólst upp á Geirastöðum í Stakkadal, Aðalvík.
Þann 18. október 1913 gekk Friðrik að eiga Mikkalínu Þorsteinsdóttur frá Borg í Skötufirði. 
Friðrik var stór maður vexti og hafa menn á orði, sem voru samtíma honum, að svo stórar hendur sem Friðrik hafði hefðu þeir aldrei augum litið.


Mikkalína Þorsteinsdóttir var fædd á Borg í Skötufirði þann 18. ágúst árið 1892. Hún var dóttir Þorsteins Gíslasonar, bónda á Borg, og konu hans Jóhönnu Maríu Jóhannesdóttur.
Mikkalína ólst upp á Borg í Skötufirði. Hún lést á sjúkrahúsinu á Ísafirði þann 7. apríl árið 1942 og var jörðuð í kirkjugarðinum á Stað í Aðalvík. 

Friðrik/Fljótavík

 


Þorsteinn var fæddur í Æðey, Snæfjallahreppi Ís. 25. desember 1864. Hann var sjómaður og bóndi á Borg, Ögurhreppi, Ís. Foreldrar hans voru Gísli Jónsson, fæddur í Reykjafirði, Reykjafjarðarhreppi, Ís. 20. ágúst 1838, látinn 28. mars 1922 og kona hans Sólveig Þorleifsdóttir, fædd í Æðey, Snæfjallahreppi, Ís. 24 apríl 1841, látin á Ísafirði 11 maí 1913. Gísli var formaður og smiður í Æðey og Ögurnesi við Ísafjarðardjúp, síðar búsettur á Ísafirði. Faðir Sólveigar var Þorleifur Benediktsson, bóndi í Æðey, Snæfjallasókn, Ís. 1845. Þorleifur var síðar einnig bóndi í Unaðsdal og Kálfavík . Kona hans var  Sigríður Árnadóttir, húsfreyja í Æðey, sem fædd var í Æðey 1815, látin 22. október 1882.  Sólveig var í Æðey, Snæfjallassókn 1845. Húsfreyja í Kálfavík, á Borg og víðar í Ögursveit, Ís.
Þorsteinn lést 68 ára að aldri að Borg, Ögurhr., Ís. 6. júní 1933 og var hann jarðsettur í Ögurkirkjugarði í reit nr. 60.

Ögur.

 

Ögurvík

 


22.06.2013
Þjóðv.+Þjóðv. ungi
14.11.1913. bls 208

Sólveig

Þann 11. maí þ.á. andaðist í Ísafjarðarkaupstað húsfreyjan Sólveig Þorleifsdóttir. Hún var fædd að Sandeyri í Snæfjallahreppi í Norður-Ís. 24. apríl 1841 og var því frekra 72 ára að aldri, er hún andaðist. Foreldrar hennar voru: Hjónin Þorleifur bóndi Benediktsson og Sigríður Árnadóttir, frá Æðey, Jónssonar sýslumanns í Ísafjarðarsýslu, og bjuggu þau þá að Sandeyri. Sólveig heitin ólst fyrst upp að Sandeyri hjá foreldrum sínum, en fluttist þaðan í Æðey til afa hennar og ömmu: Árna Jónssonar og Elísabetar Rósenkar Guðmundsdóttur, og dvaldi þar síðan, meðan hún var ógipt. En árið 1864 giptist hún eptirlifandi eiginmanni sínum, Gísla Jónssyni, Bjarnasonar, og var Bjarni bróðir Gísla heitins Bjarnasonar dannebrogsmanns á Ármúla. Byrjuðu þau hjónin búskap að Eiði í Hestfirði í Norður-Ís., en fluttu þaðan, að ári liðnu að Eyri í Seyðisfirði, og dvöldust þar eigi all-fá ár í húsmennsku, En lengst voru þau í húsmennsku í Ögurnesinu, þ.e. í samtals 21 ár, eður þar til þau fluttust til Ísafjarðar vorið 1905. Alls eignuðust þau fjögur börn, og dóu tvö þeirra í æsku: Jóhann og Vigdís, en tveir synir komust til fullorðinsára og eru enn á lífi.
Synirnir eru: Þorsteinn, bóndi að Borg í Skötufirði og Árni, yfirfiskimatsmaður á Ísafirði.
Hugur Gísla hneigðist allur að sjónum, og mun meira, en að landbúskapnum, endar var hann sjósóknari mikill, og vel laginn til formennsku. Heimili þeirra hjónanna, í Ögurnesinu, lá mjög í þjóðbraut, fyrir alla, er ferð áttu inn í Djúpið að vestanverður,og fór mjög orð af gestrisni þeirra hjóna við alla, er þá stungu þar við stafni, til þess að fá einhverja hressingu, áður en áfram var haldið ferðinni.
Sólveig heitin var sköruleg kona, og mun hafa verið fríðleikskona á yngri árum sínum, svipmikil, og að öllu hin gerðarlegasta. Hún var og kona hreingerð og einörð, og margt yfirleitt vel um hana.
Eptir það, er þau hjónin fluttust til Ísafjarðar, dvöldu þau þar hjá syni sínum, Árna yfirfiskimatsmanni Gíslasyni, og þar andaðist Sólveig sáluga, sem fyrr segir.
Minning hennar mun óefað lifa eigi all-fáa áratugina við Ísafjarðardjúp, margir þar, er henni kynntust, sem og manni hennar.

23.06.2013
Grein skrifuð um Gísla í blaðinu Ægi 01.04.1922, bls 59.
Gísli í Ögurnesi
Hinn 27 mars þ.á. andaðist á Ísafirði Gísli Jónsson, sem lengi bjó í Ögurnesi við Ísafjarðardjúp, 83 ára að aldri. Hann var um langan aldur í röð hinna langfremstu sjómanna og farmanna við djúp, mátti telja hann sægarp á yngri árum hans. Hann var formaður í ýmsum veiðistöðum við Djúpið í 45 ár samfleytt, og lét ekki af formensku fyr en um sjötugt. Var hann lengi með hinum hluthæstu formönnum. Lagni hans og karlmensku var við brugðið, bjargaði hann víst þrisvar sinnum mönnum af skipsreika í vondu veðri og aldrei hlektist honum á í allri hans löngu formensku og miklu sjósókn. Við landvinnu var hann dugnaðar og eljumaður hinn mesti. Þegar kaupfélag Ísfirðinga á sínum tíma tók upp þá nýtízku að veita verðlaun fyrir góða verkun á saltfiski hlaut Gísli hæstu verðlaun fyrir vandaða og góða vöru. Fyrir dugnað og eljusemi fékk hann fyrstur manna styrk úr styrktarsjóði gammalla formanna við Ísafjarðardjúp, er kaupfélag Ísfirðinga stofnaði af sjóðleifum sínum, er það hætti.
Kona Gísla var Solveig Þorleifsdóttir frá Unaðsdal, hin mesta sæmdar- og gæðakona. Þau hjónin dvöldu á ýmsum stöðum við Djúpið, en lengst í Ögurnesi. Það er í þjóðbraut og varð heimili þeirra góðfrægt fyrir gestrisni og góðgerðasemi. Af börnum þeirra komust tveir synir til fullorðinsára og eru enn á lífi, Árni yfirfiskimatsmaður á Ísafirði og Þorsteinn bóndi á Borg í Skutufirði. Konu sína misti Gísli fyrir nokkrum árum, dvaldi hann eftir það hjá Árna syni sínum það sem eftir var æfinnar. Síðustu æfiár sín var hann þrotinn að heilsu og kröftum. Með honum er horfinn einn af hinum gömlu og góðu ísfirzku formönnum, er voru sjómannastétt vorri til vegs og virðingar.
S. St.
Sólveig og Þorsteinn eru bæði jarðsett í Eyrarkirkjugarði á Ísafirði. E1-17, E1-56Jóhanna María var fædd á Hjöllum, Ögurhreppi, Ís. 5. júlí 1862. Foreldrar hennar voru Jóhannes Andrésson Jónssonar, bónda á Hjöllum, Ögurhreppi sem fæddur var á Hjöllum 24. júní 1834 og látinn 19. júní 1862 og kona hans Friðgerðar Hafliðadóttur sem var fædd í Heydal, Reykjafjarðarhreppi, Ís. 8. júní 1834 og látin 26. júní 1917.

21/06.2013
Þjóðviljinn+Þjóðviljinn ungi 14.06.1910, bls 108.
Hinn 2. mars f.á. andaðist á Borg í Skötufirði bóndinn Ari Rósenkarzon, 63 ára að aldri. Hann var fæddur í Efstadal í Ögursveit, og ólst þar upp hjá foreldrum sínum. Árið 1874 kvæntist hann ekkjunni Friðgerði Hafliðadóttur á Borg, og dvaldi þar síðan alla æfi. Bjuggu þau á litlum parti í samfleytt 22 ár, en dvöldu eftir það í húsmennsku hjá tengdasyni Friðgerðar Þorsteini Gíslason. Barn áttu þau eitt, er dó ungt.
Ari heitinn hafði lítið um sig í búskap sínum en bjó laglega, og átti jafnan nægilegt fyrir sig. Hann var hinn mesti þrifamður, og gekk prýðilega um allt er hann hafði undir hendi, fór snilldarlega með skepnur sínar enda báru þær af búpeningi flestra nágranna hans. Ari heitinn var vandaður maður til orðs og æðis, fáskiptinn um hagi annarra en rækti skyldur sínar samviskusamlega. Í umgengni var hann jafnlyndur, og glaðlyndur, og kom sér vel við alla, skilvísastur var hann í öllum viðskiptum og vildi engum skulda. Hann lætur eptir sig gott mannorð hjá öllum, er hann þekktu.

Þau Þorsteinn og Jóhanna María gengu í hjónaband þann 5. desember 1889 og  eignuðust átta börn: 
Jóhannes, vélstjóra á Ísafirði, bjó síðast á Vöðlum í Önundarfirði. Hann drukknaði árið 1944. Hafliða, sjómann á Drangsnesi. Mikkalínu sem var húsfreyja í Tungu og víðar í Sléttuhreppi. Gísla, sjómaður á Ísafirði 1930, bóndi á Borg, Ögurhreppi og síðar Þorfinnsstöðum Mosvallarhreppi, Ís. Síðast búsettur á Flateyri. Jakob, verkamaður á Ísafirði, síðast búsettur í Reykjavík. Kristjana, ekkja í Reykjavík 1945, húsfreyja í Reykjavík. Guðjón, dáinn fjögurra ára og Marías, sjómaður í Keflavík. Hann drukknaði 1946. Auk þess eignaðist Þorsteinn eina dóttur fyrir hjónaband með Ríkeyju Helgu Bjarnadóttur, Kristínu, sem dó innan við mánaðargömul. 
Þorsteinn lést 6. júní 1933 á Borg en Jóhanna María 14. maí 1952.

Jóhanna María dvaldi síðustu ævidaga sína hjá dótturdóttur sinni og nöfnu, Jóhönnu Friðriksdóttur í Litlaholti á Flateyri. Hún lá veik í litlu herbergi inn af stofunni þegar næst yngsta barn Jóhönnu fæddist, þann 11. maí 1952. Barnið var borið að rúmi gömlu konunnar sem þá var orðin rænulítil.

Í blaðinu Vesturlandi þann 18.07.1946 er þessi árnaðarósk til Jóhönnu Maríu í tilefni 85 ára afmælis hennar:
Þann 5. júlí s.l. varð 85 ára frú Jóhanna M. Jóhannesdóttir frá Borg í Skötufirði, ekkja Þorsteins heitins Gíslasonar, er lengi bjó á Borg. Jóhanna hefur undanfarið dvalið hjá sonardóttur sinni Ingibjörgu Jóhannesdóttur í Hjarðardal íÖnundarfirði.
Hún er enn ern til sálar og líkama.
Þorsteinn og Jóhanna á Borg áttu 8 börn og eru fjögur þeirra á lífi.
Vesturland óskar þessari öldnu heiðurskonu til hamingju með 85 ára afmælið.


Jóhanna María ásamt börnum sínum

  Friðrik var vinnumaður á Skarði í Skötufirði og þar kynntust þau Mikkalína. Hann réri með hana á opnum árabát yfir Djúp til Látra í Aðalvík þar sem þau stofnuðu heimili.

Friðrik var húsmaður á Látrum 1913 - 1914, bóndi í Tungu í Fljótavík 1914 - 1915, húsmaður á Sæbóli í Aðalvík 1915 - 1917. Eftir það bjó hann á Látrum í bænum Húsatúni.
Jörðin Húsatún var gjöf til Friðriks frá Hannesi Sigursyni, kaupmanni á Látrum, og konu hans Jórunni Einarsdóttur Sívertsen. Nú í dag er jörðin þinglesin eign barna Friðriks.

Bærinn á Húsatúni stóð í brekkunni miðsvæðis á Látrum. Oft hefur verið mannmargt í Húsatúni, því tvær fjölskyldur bjuggu þar fyrstu árin í sitt hvoru herberginu og einnig létust foreldrar Friðriks bæði þar heima.
Eftir að þau voru orðin eina fjölskyldan í húsinu var því skipt í skúr, gang, eldhús og stofu allt á einni hæð. Kjallari var undir húsinu, í honum var geymdur mór og surtarbrandur, sem notaður var til að kynda upp húsið. 
Engar kindur höfðu þau fyrstu árin en Friðrik sótti alltaf sjóinn. Fljótlega eignuðust þau þó kindur og sáu börnin um að smala og voru síðan kindurnar mjólkaðar, engar kýr höfðu þau fyrr en allra síðustu árin.

Húslestur var alltaf lesinn á sunnudögum og Passíusálmarnir á hverju kvöldi yfir föstuna.
Jólagjafirnar sem elstu börnin fengu meðan þau voru í heimahúsum voru svartir sokkar og sauðskinnsskór, handverk móður þeirra.
Sauðskinnsskór voru mikið notaðir á þessum tíma en þegar yngstu börnin komust á legg fóru þau að fá "gúmmítúttur" sem kallaðar voru.

Þegar byggð tók að eyðast í Sléttuhreppi eða árið 1946 fluttist Friðrik til Flateyrar ásamt yngstu dóttur sinn Elísabetu Önnu. Hann var þá orðinn ekkjumaður og börnin flogin úr hreiðrinu. Frá Flateyri lá leiðin svo suður til Reykjavíkur og loks til Hafnarfjarðar. Þar keypti hann sér sumarbústað og flutti hann á landsskika í hrauninu. Húsið nefndi hann Húsatún, eins og bæinn sinn á Látrum.
Þarna átti Friðrik margar ánægjustundir við að dytta að húsinu og rækta upp fallegan blómagarð sem var sértstakur frá náttúrunnar hendi. Þar var skemmtileg laut, hinar fjölbreytilegustu blómategundir og allt mjög snyrtilegt.
Alveg var ótrúlegt hversu stóru hendurnar hans voru laghentar við blómaræktina.
Ekki spilltu heldur leiktækin, rólur, vegasalt og fleira sem hann setti upp í kringum húsið. Elstu barnabörnin eiga ógleymanlegar minningar um stundir sem þau áttu þar með honum. 
Nú stendur aðeins eitt tré eftir í garði hans í hrauninu. Skammt þar frá sem bústaðurinn hans stóð stendur nú dvalarheimili Hrafnistu.

 Hrakningar á mótorbátnum BjörgvinÞegar Friðrik Geirmundsson var þrjátíu og eins árs var hann í róðri á vélbátnum Björgvin, þriggja og hálfs tonna bát sem Guðmundur Sigursson á Látrum gerði út. Björgvin var með fjögurra hesta Alpha-vél. Þessi saga er höfð eftir Geirmundi Júlíussyni.

Þetta var árið 1923 og upp úr páskum voru hafnir róðrar. Formaður var Friðrik Geirmundsson frá Látrum. Með honum á bátnum vorum fimm menn og þeir voru: Júlíus Geirmundsson, bróðir Friðriks formanns þrjátíu og átta ára gamall, Jóel Snorrason, húsmaður fjörutíu og níu ára, Sölvi Pálmason þrjátíu og níu ára, Sigurður Guðmundsson sautján ára og Geirmundur Júlíusson fimmtán ára. Fjórða og fimmta maí þetta vor gekk yfir mikið norðan veður sem var mjög hart svo sem sjá má á því að fjögur skip rak upp í Hornvík.

Þeir réru með línu og fiskerí var með betra móti djúpt á Aðalvíkinni. Það var róið út á svokallaðar Hlíðar. Í byrjun maí fréttu þeir að fiskur væri kominn á Fljótavíkina. Þær fréttir bárust frá Guðmundi Pálmasyni í Rekavík en hann hafði farið á sjó nokkrum dögum fyrr og fiskað vel. Þá var ákveðið að fara á Fljótavík og olía og salt sett um borð sem átti að duga í fjóra til fimm daga. Þeir tóku líka um borð kúfiskplóg og beittar lóðir sem leggja átti í Fljótavík.

Lagt var af stað frá Látrum um áttaleytið fimmtudagsmorguninn þriðja maí. Með voru fjögur börn sem höfðu verið í skóla á Látrum. Þeir höfðu líka lítinn bát til þess að nota við að koma börnunum í land í Fljótavík. Á leiðinnin norður var gott veður, logn og þoka. Þegar kom í Fljótavík var línan lögð, líklega þrjátíu til fjörutíu lóðir. Síðan var farið að landi og fóru Jóel og Geirmundur með skólabörnin í land en þau áttu heima á Atlastöðum. Þeir fóru heim að Atlastöðum og biðu þar meðan hinir drógu línuna. Móðir Geirmundar bakaði fyrir þá til að bæta við nestið sem var af skornum skammti. Klukkan fjögur, um háfjöruna, kom báturinn aftur upp að landinu. Gekk Jóel og Geirmundi illa að komast um borð því það braut á flúðunum og urðu þeir all blautir.

Aðfararnótt laugardags týndu þeir landi. Þegar kom frá því braut tvisvar á bátnum. Þeir sem uppi voru bundu sig fasta til að þeim skolaði ekki út. Um morguninn misstu þeir litla bátinn á hvolf og reyndu þeir að rétta hann við en ekkert gekk við það. Eftir tveggja til þriggja tíma basl við þetta bar straumurinn þá út undir Kögurinn og út í brotin. Þar tók norðurfallið bátinn því komið var stíft aðfall. Þá slitnaði litli báturinn afan úr, þrátt fyrir að hann hefði verið bundinn með tólffaldri niðurstöðu. Þegar það gerðist voru þeir búnir að sjá upp í Kögurinn og þeir það nærri landi að þeir lentu næstum upp. Þarna voru þeir svo nálægt að það var farið að brjóta á þeim. Þeir vori líka alltaf að kúpla frá því þeir voru hræddir við að fá niðurstöðuna í skrúfuna.

Þegar þeir voru búnir að sjá land var ekki um annað að ræða en að fara inn á víkina aftur og leggjast. Þeir voru með óþægileg legufæri og til að þá ræki ekki urðu þeir að þyngja akkerið með kúfiskplógnum. Allan laugardaginn hélst veðrið hið sama en um kvöldið fór að lægja svolítið. Þá fóru þeir að athuga með olíubirgðirnar og kom í ljós að lítið var eftir af olíu enda vélin verið í gangi allan tímann. Nú var ákveðið að leggjast á besta stað á víkinni, drepa á vélinni og reyna að sofa eitthvað. Mannskapnum var skipt niður, þrír í lúkarinn og þrír í vélarhúsið.

Nokkru eftir þetta braut svo á bátnum að sjórinn fossaði niður í vélahúsið. Héldu þeir að báturinn væri að farast en áttu allir lengra líf fyrir höndum. Þeir reyndu nú aftur að sofna því menn voru orðnir þreyttir og blautir eftir allar þessar hrakningar. Loftið var ekki sem best í bátnum og átti olíustybban af mótorlömpunum mesta sök á því.

Um sjöleytið á sunnudagsmorgni var komið besta veður. Þá var lagt af stað og var lens til Aðalvíkur. Þeir vissu að þeir þyrftu að nota vindinn vegna þess hversu olíulitlir þeir voru. Þeir settu því upp segl, keyrðu vélina einnig og sigldu fyrir Straumnesið. Þetta gekk allt vel en ekki var gaman að fara fyrir Straumnesið, öldurnar voru svo háar. Það braut þó aldrei á bátnum og var það fyrir öllu því hann hefði ekki þolað brot þar sem hann var orðinn svo þungur og siginn í sjó undan þunga ísingarinnar. Þeir gátu nú sem komið var ekkert barið klakann því þeir höfðu misst skorurnar í sjóinn og öxin var brotin eftir ósköpin. Þegar fyrir Straumnesið kom var siglt inn með Straumneshlíð og inn undir Kvínni kláraðist olían. Eftir það komust þeir ekkert áfram.

Inn á Aðalvíkinni var þá statt skip sem lá þar, Grótta frá Akureyri. Þeir sáu til bátsins og komu á bát til þeirra og drógu þá inn á Látralagið, um tveggja mílna leið. Báturinn sem þeir höfðu skilið eftir í legufærunum til að fara á í land var mölbrotinn í legufærunum.

Þeir vorum svartir í framan og Ingibjörg systir Geirmundar sagðist hafa haldið að þar væru negrar að koma. Þeir sváfu síðan í kaldri og óvistlegri verbúðinn. Friðrik Geirmundsson og Júlíus Geirmundsson voru orðnir sárir eftir blaut skinnklæðin. Þeir voru í gömlu skinnklæðunum sem á var borinn grútur og lýsi. Geirmundur var í nýjum olíustakk og buxum og ósár.

Hann var því sendur á mánudagsmorguninn norður í Fljótavík að láta vita af þeim. Á Látrum fréttu þeir eftir Guðmundi Pálmasyni í Rekavík að báturinn hefði örugglega farist. Í Fljótavík frétti Geirmundir að aldrei hefði sést til bátsins úr landi og hefði Jósef á Atlastöðum farið þrisvar út að sjó til að gá að þeim.

Það var vont gangfæri yfir Tungukjöl. Snjór hafði komið á auða jörð í þessu hreti. Það hafði verið gott vor og komin alveg græn jörð fyrir garðinn.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

title

Click to add text, images, and other content

Google Translator

:)

Recent Forum Posts

No recent posts