adalvikogsletta

Guðmundur Pálmason

Guðmundur Pálmason átti sautján börn. Samkvæmt frásögn Jóhönnu Friðriksdóttur er þó talið að einn sonur hafi dáið ungur og samkvæmt frásögn Elísabetar Pálmadóttur minnist hún þess að faðir hennar, hafi talað um að systkinin hafi verið átján. Samkvæmt heimildum úr Íslendingabók voru börn Guðmundar átján. Hann eignaðist einn son, Sigurð, sem lést innan við eins árs aldur, með Sigríði Helgu Guðmundsdóttur, fædd 4. júní 1860, látin 8. júní 1943. Og síðar fjögur börn með Bjarneyju Andrésdóttur. Bjarney var fædd 3. nóvember 1890 og lést þann 7. júní 1976. 


Bjarney, Guðmundur og ?

Guðmundur Pálmason var húsmaður í Rekavík 1902 - 1905, bjó á Látrum 1905 -1910, var bóndi í Rekavík 1910 - 1931, var á Látrum 1931 -1934, var  bóndi í Rekavík 1934 -1947, flutti þá inn í Álftafjörð í Ísafjarðardjúpi og bjó þar til dánardægurs. Hann er jarðaður í Súðavíkurkirkjugarði.

Guðmundur kvæntist Ketilríði Þorkelsdóttur 30. október 1899 og er hennar getið í heimildum sem húsfreyju í Rekavík bak Látur, Sléttuhreppi, Ís.  Ekki fer mörgum sögum af hennar högum en Jóhanna Friðriksdóttir segir hana hafa verið lágvaxna konu sem verið hafi sívinnandi. Heimilishaldið hvíldi að mestu á hennar herðum þar sem Guðmundur var mikið fjarverandi. Elísabet Pálmadóttir man eftir að faðir hennar talaði um hversu gott það hafi verið að sitja í eldhúsinu á bernskuheimilinu með harðfisk og flot eftir komu heim úr erfiðri ferð.

Ketilríður var fædd 18. ágúst 1875, látin 18. nóvember 1925. Hún var dóttir Þorkels Ísleifssonar og Maríu Gísladóttur. Þorkell var fæddur í Staðarsókn í Aðalvík, N-ís 28 nóvember 1841, látinn 13 apríl 1905. Í heimildum er getið um Þorkel sem niðursetning á Hesteyri, Aðalvíkursókn, Ís. 1845 og sem bónda á Látrum, Sléttuhreppi, Ís. og í neðri-Miðvík. 
María var fædd í Staðarsókn í Aðalvík, N-ís 13. október 1843, látin 20. september 1880. Í heimildum er getið um Maríu sem barn í foreldrahúsum í Þverdal, Aðalvíkursókn, Ís, 1845 og sem húsfreyju að Látrum í sömu sókn.
Þorkell og María gengu í hjónaband þann 21. ágúst 1868 og eignuðust saman tíu börn. Þorkell eignaðist fimm börn með Guðrúnu Friðriksdóttur, ekki er getið um í heimildum að þau hafi verið í hjónabandi en fyrir átti Guðrún átta börn. Guðrún var fædd 27. maí 1845, látin 10. ágúst 1920.
Í bók Gunnars Friðrikssonar Mannlíf í Aðalvík og fleiri minningarbrot segir: "Árið 1882 giftist amma aftur (Guðrún Friðriksdóttir), ekkjumanni frá Miðvík, Þorkeli Ísleifssyni, er misst hafði konu sína, Maríu Gísladóttur, tveim árum áður, aðeins 37 ára, frá sex börnum. Amma sagði mér að María hefði verið dóttir Ketilríðar Bjarnadóttur Halldórssonar í Görðum. Þá sagði hún mér að Ketilríður móðir Maríu, hefði er hún var 18 ára sumarið 1840 kynnst Jónasi Hallgrímssyni skáldi er þá var á ferð í Aðalvík. Hefði skáldið orðið svo snortinn af fegurð þessarar ungu heimasætu, að er hann kom inn að Snæfjöllum (Snæfjallaströnd) úr þessari Aðalvíkurferð 31. ágúst þá um sumarið hafði hann skrifað þeim Konráði Gíslasyni og Brynjólfi Péturssyni í Kaupmannahöfn um þessa frjálslegu og hispurslausu stúlku, er þekkti til þeirra af skrifum þeirra og bar þeim kveðju hennar.
Ketilríður var jörðuð í kirkjugarðinum á Hesteyri og má enn þann dag í dag finna leiði hennar þar. 

Í blaðinu Vesturlandi 31.12.1925 birtist þessi þakkarkveðja frá Guðmundi og börnum. Hún er dálítið óskýr til lesturs en textinn skilst samt vel. 

 

 

Fjölskyldan í Rekavík: Frá vinstri efri röð Ólafía Einarsdóttir, seinni kona Pálma, Pálmi, Ketilríður, María, Guðmundur.

Mið röð: Messíana, Pálmi, Stefán, Ingimar.
Sitjandi börn er ég viss með að nafngreina giska á að lengst til vinstri sé Halldóra og lengst til hægri Friðgeir.

Þau ár sem Guðmundur bjó í Rekavík sá hann um vitavörslu á vitanum á Straumnesfjalli og hafði hann sjálfur á orði að hann væri vitavörður á erfiðasta vita landsins.

Í http://www.bb.is/?PageID=116- fréttir af ferðamálum - frá Hesteyri til Hornvíkur - ferðalýsingar Gísla Hjartar, leiðsögum. segir:

Ef farið er enn utar má sjá ofan yfir vitann á Straumnesi. Austan við
Straumnestá er dalur framan í Straumnesfjallinu, Straumnesdalur, hömrum girtur nema á einum stað í dalkinninni að vestanverðu. Þar eru reknir niður í jörðina stálfleinar með lykkju efst í hverjum og dregin þar í stálvír. Þarna fór niður í dalinn Guðmundur Pálmason bóndi í Rekavík bak Látur, vitavörður Straumnesvita.  Stálvírinn notaði Guðmundur sér til halds og trausts er svell voru og harðfenni á vetrum þegar hann vitjaði vitans. Frá Rekavík gekk hann á fjallið úr Öldudal er liggur upp úr Rekavík.
Á milli Öldudals og Straumnesdals liggur hryggur á milli dalbotnanna og sér ofan í þá báða af honum. Örfáar litlar vörður eru á fjallinu milli dalanna eftir Guðmund svo hann gæti fundið "tökin" sín niður í Straumnesdal í dimmviðri.
 

Hann var einnig leiðsögumaður á enskum togurum. Eitt sinn er hann sinnti þessari leiðsögu þá hvarf hann í langan tíma, vissi enginn hvar hann hélt sig og var hann talinn af. Ári seinna kom hann til baka. Það má láta nærri að fjölskyldan hafi orðið hissa.

Á þeim tíma hafði verið erfitt um föng hjá Vestfirðingum. Guðmundur lét koma með bátana út að togaranum og fyllti þá af fiski, þótti það mikill fengur.

Fólki þótti gott að hafa Guðmund og hans fjölskyldu á bak við sig ef koma þurfti málum áfram. Heimili hans þótti höfðinglegt og var Guðmundur sögumaður góður ásamt því að vera afbragðs skíðamaður.

Jóhanna Friðriksdóttir segir af því að allt heimilisfólkið hafi safnast saman er hann kom í heimsókn til þess að hlusta á frásagnir hans.

Hér á eftir fer kafli úr bókinni Mannlíf í Aðalvík eftir Gunnar Friðriksson:

Minnisstæður samferðamaður föður míns og tíður
gestur á æskuheimili mínu var Guðmundur Pálmason bóndi og vitavörður í Rekavík bak Látur. Hann var tæplega ári yngri en pabbi, fæddur 28. janúar 1878.
Guðmundur hafði tekið  við föðurleifð sinni að hluta til rétt fyrir aldamótin 1900 er hann gekk að eiga Ketilríði Þorkelsdóttur. Pálmi Jónsson, faðir Guðmundar var mikill búhöldur og hafði á sinni tíð reist stórt tvílyft timburhús á jörðinni þar sem forfeður þeirra höfðu búið mann fram af manni svo langt sem ég þekki til.

Guðmundur missti konu sína í árslok 1925 eftir tuttugu og sex ára hjúskap og hafði Ketilríður þá alið honum tólf börn. Eftir konumissinn réð hann til sín ráðskonu vestan af fjörðum, Bjarneyju Andrésdóttur, hún var tuttugu og tveimur árum yngri en hann. Með henni átti hann fjögur börn.

Þessi einstaki fjörmaður hafði að jafnaði frá mörgu að segja er hann kom í heimsókn til okkar eftir að hann hafði tekið að sér vörslu Straumnesvitans, sem reistur var 1922. Slíkar voru lýsingar hans á vetraferðum hans í vitann, viku eða hálfsmánaðarlega, að við unglingarnir létum okkur ógjarnan vanta þegar hann hóf frásagnir sínar.

Frá Rekavík út í vitann er aðeins leið fær yfir Straumnesfjallið því með sjónum verður ekki komist. Leið þessi er bæði brött og illfær í vetrarbyljum og lítið má út af bera til þess að göngumaður eigi það á hættu að hrapa til bana.
Vitinn var reistur á Straumnestánni nokkru fyrir utan þann stað þar sem Goðafoss strandaði tæpum sex árum áður. Hann var tuttugu metra há stálgrind og efst á henni var ljósakróna sem sást í sautján sjómílna fjarlægð. Þessi staður er mjög afskekktur og hættulegur og er þar jafnan mjög illviðrasamt yfir vetrarmánuðina.

Guðmundur sagði frá því að oft hafi hann orðið að skríða yfir fjallseggina til að varna því að hann fyki fram af háfjallinu. Lenti hann margoft í miklum mannraunum í þessum ferðum og fylltu lýsingar hans í baráttunni við náttúruöflin okkur aðdáun á þessum knáa sögumanni.

Guðmundur sagði frá því að það hefði í rauninni verið leikur einn að komast á staðinn í samanburði við þær raunir sem hann lenti oftsinnis í við að komast upp í vitann til að hreinsa klaka af ljósakrónunni. Stiginn upp að krónunni var opinn og óvarinn fyrir veðrum og vindum svo að hvert þrep var venjulega svellað. Það kom því oft fyrir í norðanbyljum að hann varð að brjóta klakann af hverju þrepi til þess að komast upp og entist honum sjaldan dagsbirtan til þess.
Það var því ekki hjá því komist að reisa sér smáskýli í einu horni grindarinnar þar sem hann gat hafst við þegar það reyndist meira en dagsverk að hreinsa stigann eða þegar veður spilltist svo að hann komst ekki aftur heim fyrr en það var gengið niður.

Lýsingar Guðmundar á þrekraunum sínum við vitavörsluna voru svo einstæðar að við sáum hann fyrir okkur sem ofurmenni og einstaka hetju sem hætti lífi sínu til þess að halda vitanum í lagi svo ljós hans gæti leiðbeint sjófarendum um úfinn sjó til heimahafnar eða hvert svo sem ferðinni var heitið. Hann Guðmundur Pálmason í Rekavík var að okkar mati einstakur bjargvættur sem tryggði með harðfylgi sínu að vitinn gengdi hlutverki sínu að lýsa út í storm og sorta.

Það var mér og öðrum á heimili mínu mikið fagnaðarefni þegar faðir minn keypti viðtæki, sem gekk eðlilega fyrir rafhlöðum, þegar Ríkisútvarpið tók til starfa árið 1930. Faðir minn var fyrri til  í þessu efni en grannar okkar og því var oft margt aðkomufólk á heimilinu á sendingartímum þess til þess að fylgjast með þessu undri. Þar lét Guðmundur Pálmason sig ekki vanta í hópinn ef hann átti heimangengt.

Með komu útvarpsins mátti segja að einangrun þessarar afskekktu byggðar væri rofin og þetta undratæki gerði það að verkum að við gátum farið að fylgjast með því helsta sem var að gerast úti í hinum stóra heimi svo að segja um leið og það gerðist.

Það var okkur  líka undrunarefni að vitvörðurinn og hetjan Guðmundur Pálmason stóð á því fastar en fótunum í fyrstu að ef hann gæti heyrt í þeim fyrir sunnan hlytu þeir alveg eins að geta heyrt í honum. Hann hafði orðið vitni að þeim tækniframförum að síminn gerði mönnum kleift að skiptast á skoðunum um langan veg. Hann dró þá ályktun að hið sama hlyti að gilda um þetta nýja undratæki, útvarpið. Og þetta var tæknimönnum raunar fært að gera löngu síðar.

 

 

 

 

 

 

 

Google Translator

:)

Recent Forum Posts

No recent posts