adalvikogsletta

Johanna Fridriksdottir

Jóhanna Friðriksdóttir er fædd 10. febrúar 1914 í Nesi að Látrum í Aðalvík. Hún var skírð Þorstína Jóhanna María en þekkist best undir nafninu Jóhanna. Hún er líka kölluð af sumum Stína eða Jóa. Nafn hennar er dregið af móðurforeldrum hennar, Þorsteini og Jóhönnu Maríu á Borg í Skötufirði.

Hún var lítil vexti og kvik í hreyfingum sem barn, gat aldrei verið kyrr. Pabbi hennar sagði að hún hefði átt að vera drengur. Hún var uppátækjasöm, glaðvær og hafði gaman af söng.
Jóhanna ólst upp á bænum Húsatúni að Látrum í Aðalvík. Fjölskyldan hafði nóg til hnífs og skeiðar og segist Jóhanna ekki  muna eftir að hafa verið svöng. Þó var svo þröngt í búi að börnin þurftu að liggja í rúmunum meðan fötin voru þvegin og þurrkuð.
Jóhanna minnist æskuheimilisins á Húsatúni á eftirfarandi leið:
Í eldhúsinu voru tvö rúm, bekkir, borð og eldavél sem reykti mikið. Það var eldað og borðað  í eldhúsinu og þar var allur þvottur þveginn og skolaður í bæjarlæknum. Oftast var soðinn fiskur á borðum og hafrar og það var líka drukkið kaffi á þessum árum. Mjólkin var skömmtuð mjög naumt. Það voru viðarþiljur í herberginu og rúm sem tveir og tveir deildu. Í húsinu voru timburgólf. Fatnaður var úr heimatilbúnu efni. Mikið var prjónað á  heimilinu og saumaðir sauðskinnsskór. Notaðir voru olíulampar til lýsingar og kynt með ofni. Kerti voru aðeins notuð á jólum. Jóhanna minnst þess að hafa þolað illa ullina og minnist þess einnig þegar hún fékk kuldabólgu á fæturnar og Lauga Friðriks bar á áburð sem hún átti til þess að lina sársaukann.
Leikir barna voru svokallaður risaleikur að sögn Jóhönnu. Segir að þau hafi líka nælt sér í hesta til að fá sér sprett og hafi þá notað sokkaböndin sín, sjálfsagt sem einhverskonar reiðtygi, og hafi þau oft fengið skrámur. Fullorðna fólkinu líkaði það uppátæki engan veginn
Börnunum voru kenndar bænir sem þau fóru með fyrir svefn. Og Jóhanna segir föður sinn hafa lesið húslestra á sunnudögum allan veturinn og svo passíusálmana.
Kindur áttu þau og eignuðust síðar eina kú, var það mikil búbót.
Friðrik, faðir hennar, var á sjó mikinn hluta ársins og móðir hennar og börnin hugsuðu að mestu um búfénað.
Farið var í verslunarferðir til Hesteyrar og Ísafjarðar.

Fyrstu minningar hennar um sjálfa sig, að hennar eigin sögn, eru við bæjarlækinn.
Mömmu hennar, Mikkalínu, hafði hlotnast rautt flauelsefni sem hún saumaði úr kjól fyrir Jóhönnu. Á kjólnum var hvítur blúndukragi. Jóhanna var mjög glöð með nýja kjólinn sinn og langaði að sýna hann vinkonu sinni, Beggu, sem var jafnaldra hennar. En til þess þurfti hún að stökkva yfir bæjarlækinn sem var óvenjumikill vegna vorleysinga. Ekki vildi nú betur til en svo en að hún datt í lækinn. Konu að nafni Guðný Sveinsdóttir bar þar að og hjálpaði litlu stúlkunni í rauða kjólnum upp úr læknum. Jóhanna minnist þess að hafa grátið mikið vegna atviksins.

Jóhanna fór snemma að hjálpa til á heimilinu og sex ára var hún farin að smala fé ásamt Margréti Friðriksdóttur. Þær fóru með féð upp í fjall að morgninum og komu með það aftur heim síðdegis, 4 eða 5, til að mjólka þær. Hún var þá á sauðskinnsskóm því annað þekktist ekki. Segir hún að oft hafi henni verið kalt og hún blaut í fæturnar, oft hrædd og hafi þá sungið mikið og einnig hafi hún orðið vör við huldufólk.

Ein smalaferð er henni minnisstæð, var hún þá ein á ferð. Það skall á dimm þoka og hún varð hrædd. Heyrði hún þá móður sína kalla og hélt hún á hljóðið. Móðir hennar kallaði reglulega til hennar frá bænum, hún átti ekki heimangengt en þetta varð til þess að Jóhann komst heil heim.

Jóhanna stundaði skóla um stuttan tíma og lærði að lesa skrifa og reikna.
Skólinn var á Látrum og presturinn, Magnús Jónsson, kennari ásamt Bergmundi og Brynhildi Guðmundsdóttur. Hún var 7 eða 8 ára og sex til átta börn með henni í skólanum Þegar hún var tólf ára fór hún að heiman til presthjónanna á Stað á Sæbóli. Sæból stendur vestan megin Aðalvíkur en Látrar eru Norðan megin. Presthjónin á Stað voru Jóhönnu góð og hún hjálpaði til þar á bænum.

Prestur á Stað var þá Magnús Jónsson, kallaður Franski Mangi. Hann þjónaði Stað frá 1904 til 1938. Hann var valmenni hið mesta og vel orðhittinn. Hann talaði frönsku og þýddi Maupassant á íslensku. Erfið kirkjuleið er að Stað og er haft eftir séra Magnúsi er hann var að lýsa samgöngum innan sóknarinnar:
"Heldur færi ég fótgangandi til helvítis en ríðandi norður að Horni".
Horn var nyrsti bærinn í sókninni.
Fengið að láni úr ferðalýsingum Gísla Hjartar á www.bb.is

Árið 1928 um vorið var Jóhanna fermd. Hún man þann dag ennþá skýrt
Um morguninn fór hún með kýrnar, þvoði sér í bæjarlæknum og þegar hún kom heim var hún klædd í kjól af prestdótturinni, sem reyndist heldur stór. Allar stúlkurnar voru fermdar í hvítum fermingarkjólum.
Foreldrar hennar voru einnig viðstaddir athöfnina.

Gunnar Friðriksson og Jóhanna voru fermingarsystkini og finnst mér tilvalið að láta hér fylgja með lýsingu hans á fermingardeginum.
Úr bók Gunnars Mannlíf í Aðalvík.
Ferming á hvítasunnu
Á hvítasunnudag 1928 vorum við 12 unglingar fermdir í Staðarkirkju. Þá athöfn framkvæmdi sá mæti kennimaður Runólfur Magnús Jónsson en áður höfðum við
"gengið til prestsins", eins og það er kallað, í eina viku. Við sem vorum frá Látrum, Stakkadal, Miðvík, Hesteyri og af Ströndum, urðum að búa á Sæbóli eða í Þverdal þessa viku. Ég og Theódór vinum minn bjuggum hjá prestinum og sonum hans. Ég hafði reiknað með að pretur væri maður værukær og færi seint á fætur en raunin varð önnur. Hann vakti mig fyrir allar aldir á morgnana til þess að ég gæti farið með hinum út á vatnið til að veiða silung í soðið. Höfðum við verið drykklanga stund út á vatninu þegar fólk va almennt komið á fætur á Stað. Virtist prestur hafa verulega ánægju af þessum morgunverkum. Að þeim loknum var svo hægt að taka til við kristindómsfræðsluna.
Séra Runólfur Magnús var alltaf léttur í lund og glaður og hafði ætíð nóg að strafa en hann lagði sig einnig fram um að innræta okkur Guðstrúna. Hann hvatti okkur til að læra kverið sem best svo og það sem mestu máli þótti skipta í Biblíusögunum.
Laugardaginn fyrir hvítasunnu vorum við síðan látin ganga undir próf en að því búnu var okkur raðað eftir frammistöðu okkar í því. Það fór þannig að ég varð fyrstur okkar strákanna en Bergþóra Magnúsdóttir, frænka mín, fyrst af stúlkunum. Þetta fyrirkomulag að láta kunnáttu okkar ráða röðuninni skapaði harða keppni á milli okkar.
Foreldara mínir komu svo snemma til kirkju á hvítasunnudagsmorgni að heimilisfólkið á Stað var almennt ekki komið á fætur. Að fermingunni lokinni var höfð lítil viðstaða á prestsetrinu og haldið heim beint heim að Látrum. Þangað var komið seinni hluta dags.
Það var ekki efnt til fermingarveistlu, eins og einhver gæti haldið, en til þess að gera okkur dagamun fengum við fermingarsystkinin skólann að láni og héldum þar dansleik.

Á Stað var hún til fimmtán ára aldurs. Hún skrapp aðeins heim árið sem hún var fjórtán ára. Þegar hún var svo fimmtán ára var hún heima eitt sumar en fór síðan í vist til Ísafjarðar og vann þá hjá Elísabetu Guðmundsdóttur á hótel Sólheimum. Var hún þar sendill og gisti í herbergi með vinnukonum. Elísabet fórst seinna meir í flugslysi.

Jóhönnu dreymdi Elísabetu skömmu eftir að hún hafði eignast næst yngsta barn sitt og var barninu gefið nafnið Elísabet María. Maríu nafnið er komið frá Jóhönnu Maríu ömmu Jóhönnu sem lést fáum dögum eftir að barnið fæddist. Það að dreyma einhvern látinn skömmu eftir barnsburð var álitin bón um að barnið bæri nafn hins látna.

Jóhanna fór síðan að vinna hjá Matthíasi Ásgeirssyni og Sigríði Ásgeirsdóttur á Ísafirði. Þaðan fer hún til Æðeyjar í Ísafjarðardjúpi til Elísabetar (Elísabet var ein af Æðeyjarsystkinunum svonefndu) og Jónasar. Átján ára fer hún suður og vinnur á heimili Indriða Einarssonar leikskálds og konu hans. Þaðan fer hún í vist til Soffíu Steinback, þar segir Jóhanna að sér hafi liðið vel og héldu þær Soffía tengslum æ síðan með bréfaskrifum og heimsóknum allt þar til Soffía lést fyrir fáum árum. Jóhanna var svo næstu árin í Æðey á sumrin en á veturna hjá Soffíu.
Tuttugu og eins árs kynnist Jóhanna Ingólfi, verður ófrísk og eignast með honum son. Hún flytur til hans en þau eiga ekki samleið. Jóhanna segir að hún hafi aldrei upplifað jól sem þau hún átti með honum, því þar var ekkert gert í tilefni þeirra. Þegar sonur þeirra Ingólfur Mangnús var skírður voru viðstödd afi hans og föðursystir en Ingólfur lét ekki sjá sig.
Jóhanna flutti frá Ingólfi og leitaði skjóls hjá Soffíu Steinback sem hjálpaði henni. Þaðan fór hún með togara til Hnífsdals og gisti hjá Olgu og Jens og síðar fór hún með Fagranesinu til Æðeyjar þar sem hún dvaldi næstu sjö árin.

Jóhanna fer aftur heim til Aðalvíkur árið 1942 þegar mamma hennar er jörðuð og þar kynntist hún Pálma. Þau giftu sig á Ísafirði þann 6. janúar árið 1944. Viðstaddur var bróðir hennar Ari en hann fór á sjó seinnipart þessa dags og sneri aldrei aftur. Skipið sem hann var á fórst.

Jóhanna hefur alltaf verið fyrir það að hafa marga í kringum sig. Nágrannakonurnar komu oft í heimsókn og það var líf og fjör í eldhúsinu hennar. Hún sá mikið til ein um heimilið þar sem Pálmi var ætíð á sjó. Hún gaf sér alltaf tíma til að lesa með börnunum bænirnar á kvöldin en annars var hún frekar upptekin.
Þvottadagarnir tóku heila daginn það var þvegið og skolað í eldhúsinu og tók það mikinn tíma.

Elísabet Pálmadóttir lýsir heimilishögum í Litlaholti svo:

Húsið var lítið. Við sváfum öll í einu herbergi. Pabba og mömmu rúm í miðju og við allt í kring. Seinna þegar ég var tíu, ellefu ára var húsið stækkað og byggt utan um Litlaholt. Bættust þá fjögur herbergi við uppi en niðri kom þvottaherbergi og baðherbergi. Fyrir hafði aðeins verið lítið klósett niðri með vask og stórt eldhús. Elísabet minnist laugardagskvöldanna, þá voru danslög í útvarpinu og börnin voru böðuð í bala við eldavélina. Lambalæri var í ofninum og gaf mamma okkur oft að smakka eftir baðið. Mamma var heimavinnandi þar til pabbi dó en þá fór hún að vinna í fiski. Hún hitti Högna nokkru síðar, pabbi hafði beðið hann um að líta til með mömmu ef eitthvað kæmi fyrir hann. Tveimur árum síðar taka þau Jóhanna og Högni saman.
Högni hafði misst fyrri konu sína úr krabbameini frá sex börnum það yngsta var þá sex ára.
Mamma og Júlíana fyrri kona Högna voru bræðradætur. Pabbi Högna var hálfbróðir Ketilríðar, mömmu pabba, sem sagt pabbi og Högni voru systkinabörn.

Jóhanna lést á Fjórðungssjúkrahúsi Ísafjarðar 1. september 2008

Eftirfarandi ljóð var ort í minningu Jóhönnu af langömmubarni hennar, Hólmfríði Maríu Högnadóttur:

Engill fær vængi.

Einn engil ég þekkti,
er hafði ekki vængi.
En dagarnir liðu,
og lífið það styttist.
En þó líkaminn gæfi sig,
gerði ljósið það ekki.

Eftir langa bið,
eftir lífsins þraut,
eftir lífið á jörðu,
þá hvarf hún á braut.
Ég veit nú með vissu
að englar oss vernda,
því hún amma Jóa
lætur ekkert okkur henda

Handan við hliðið,
amma nú býður
úr silfruðum bauk,
blöndu af bolsíum.
Ópal, peru, pralín, kóng
lakkrís, bismark/brenndur.
alltaf mann langaði
að fylla vasa og hendur

 

Högni Sturluson er fæddur 15. apríl 1919 á Látrum í Aðalvík. Var í Rekavík bak Höfn Staðarsókn, N-Ís. 1930. Högni var til langs tíma sjómaður og bóndi. Vann við fiskvinnslu og við vélgæsu í Frystihúsini í Hnífsdal. Til skamms tíma rak hann harðfiskverkunina Reyk í Hnífsdal ásamt félaga sínum. Einnig vann hann við byggingarvinnu og smíðar síðar meir. Síðustu árin skar hann mikið út og liggja mörg fögur verk eftir hann víða, bæði klukkur og loftvogir á vegg, skrifpennar í öllum regnbogans litum svo og lítil bæjarhús sem eru til prýði í görðum.
Foreldrar hans voru Sturla Þorkelsson, sjómaður á Látrum, svo á Ísafirði, fæddur 20. október 1889 á Látrum. d. 12. desember 1924, fórst með vélbátnum Nirði, og kona hans Ingibjörg Bárðlína Ásgeirsdóttir, fædd 24. apríl 1899 í Bolungarvík, d. 30. október 1935. Þau hjón eignuðust þrjú börn. Seinni maður Ingibjargar var Sigurður Hjálmarsson, f 1894, d. 1969 og eignuðust þau fjögur börn. Þrjú komust upp en eitt þeirra, Sturla Valdimar lést í bernsku.
Móðir Högna lést er hann var 16 ára gamall.
Högni minnist þess að 9 ára gamall sá hann um að afla viðar til kyndingar. Rekavið bar hann á bakinu upp á brekku. Hjó hann í sundur og klauf í bita. Einning sá hann um að reka kindur af túnum. Hann gekk í skóla ásamt börnum úr Hornvík. Var tvo vetur í skóla tvo mánuði í einu. Skólabörnin voru í fóstri á meðan en skólinn var á Hesteyri. Magnús Rútur Jónsson hafði umsjón með kennslu. Högni minnist smölunar þegar hann var 10 eða 12 ára og minningin er bundinn því hversu gaman var að sjá fólkið koma upp flóann með kindurnar. Til fermingar þurfti að leggja á sig 6 tíma gang hvora leið. Í fermingargjöf fékk hann vasaúr og ný föt frá mömmu sinni.
Högni gekk í hjónaband með Júlíönu Guðrúnu Júlíusdóttur Geirmundssonar þann 24. júlí 1950. Júlíana var fædd á Atlastöðum, Hesteyrarsókn, N-Ís 24. júlí 1921og var á Atlastöðum 1930. Foreldrar hennar voru Júlíus Geirmundsson, útvegsbóndi frá Atlastöðum í Fljótavík og Guðrún Jónsdóttir húsfreyja.
Fjölskylda Högna og Júlíönu voru meðal 5 annarra sem brugðu búi og fluttust alfarin úr Fljótavíkinni árið 1946, og skildu þar eftir nær allar veraldlegar eigur sínar.
Þeirra börn eru:
Sturlína Ingibjörg 1941, Jónína Ólöf 1942, Júlíus Rúnar 1945, Drengur 1948-1948, Sturla Valdimar 1949, Guðleifur 1951-1972, Guðrún Elísa 1954.
Júlíana lést á sjúkrahúsinu á Ísafirði þann 1. september 1960.
Högni og Jóhanna gengu í hjónaband 15. apríl 1969. Þar sameinaðist stór hópur og hefur verið í mörg horn að líta svo vel færi á. En það starf inntu þau Jóhanna og Högni vel af hendi.
Högni lést á Fjórðungssjúkarhúsi Ísafjarðar 27 maí 2009.
Síðustu árin bjuggu þau Jóhanna og Högni í góðu yfirlæti á Hlíf á Ísafirði. Yndislegu starfsfólki hjúkrunar- og öldrunardeildar Sjúkrahússins á Ísafirði svo og starfsfólki á Hlíf ber að þakka fyrir ástúðlega ummönnun síðustu sporin í lífi þessara heiðurshjóna.

Eftirfarandi ljóð var ort í minningu Högna af barnabarni hans, Hólmfríði Maríu Högnadóttur:

Kveðja til Högna afa.

Um afa ýmsum orðum má fara,
þennan þverhaus og þrjósku hrút.
Hann var sjarmör með horn og klút
og ekki verri í vesti með bindi.

Ungur varð einstæður faðir
og mátti sex börnum sinna.
Hann var heppinn ömmu að finna,
þennan engil sem hún er og var.

Eftir lífsins þraut hvarf amma á braut.
Án ömmu honum lífið leiddist
og á endanum kallinn til neyddist,
ömmu yfir móðuna að fylgja.

Hann gat ei án hennar verið,
en ætlaði að þráast við.
Þá kom engill og plataði hann yfir,
með pralín, peru og kong.
 

Google Translator

:)

Recent Forum Posts

No recent posts