adalvikogsletta

Pálmi Guðmundsson

Pálmi var fæddur 11. ágúst árið 1907 á Látrum í Aðalvík. Foreldrar hans voru hjónin Guðmundur Pálmason, vitavörður við Straumnesvita, og kona hans Ketilríður Þorkelsdóttir.
Pálmi ólst upp í stórum systkinahópi.
Ungur að árum missti hann móður sína og byrjaði snemma að vinna fyrir sér því efni voru lítil, svo sem altíða var á þeim árum. Hugur unga sveinsins beindist snemma að sjónum og varð sjómennskan að mestu ævistarf hans þar til yfir lauk. Í fyrstu var hann á mótorbátum frá verstöðvum við Djúp og síðar um tíma á togurum. Hann var bóndi í Rekavík 1937 - 1947, fluttist þá til Álftafjarðar við Ísafjarðardjúp og síðan árið 1948 til Flateyrar við Önundarfjörð.

Pálmi var notalegur, hæglátur maður og hafði gaman af lestri bóka. Hann átti munnhörpu sem hann spilaði oftum á. Áður átti hann harmonikku en varð að selja hana er hann flutti til Flateyrar og festi kaup á húsi þar. Hús þetta bar og ber enn þann dag í dag nafnið Litlaholt.

Pálmi kvæntist árið 1944, Þorstínu Jóhönnu Maríu Friðriksdóttur Geirmundssonar úr Aðalvík (Jóhanna eða  Jóa). Þau eignuðust saman sex börn og einnig gekk Pálmi stjúpsyni sínum, Ingólfi Magnúsi Ingólfssyni, í föðurstað frá sjö ára aldri. Pálmi var góður heimilisfaðir, uppeldi barnanna og að þau gætu menntast var hans hjartans mál.

Pálmi fór á sjó þegar hann var níu ára gamall. Hann var sjóveikur og var gefið tóbak við sjóveikinni. Hann var með ör á nefi eftir ljá afa síns, Pálma. Hann var með honum við slátt og var fyrir. Sárið var grætt með sykri og jurtum. Hann fór margar svaðilfarir út í vita, yfir í Fljót og víða og sagði frá þessu á skemmtilegan hátt. Því miður er þetta ekki til niðurskrifað til varðveislu

Eitt sinni voru þeir bræður Stefán, Pálmi og Ingimar á leið heim frá vitanum í stórhríð. Vildu Pálmi og Stefán halda beint áfram sem leið lá en Ingimar, sem var mjög ratvís, vildi halda í aðra átt. Sagði hann að þeir stefndu beint fram af fjallinu ef þeir héldu beint áfram. Pálmi og Stefán létur undan og leyfðu Ingimar að ráða ferðinni. Og  það stóð heima að ef þeir hefðu haldið beint áfram þá hefðu þeir farið niður klettana.

Það var erfitt fyrir Pálma að flytja frá Rekavík. Hann og bróðir hans Stefán höfðu keypt hlut í jörðinni þar og höfðu byggt nýtt hús. Þeir stunduðu þar búskap og útgerð og höfðu einnig eftirlit með Straumnesvitanum. En eins og gefur að skilja þá varð að skilja allt eftir þegar flutt var á brott, enginn var til þess að kaupa þar sem byggðarlagið var að leggjast í eyði.

Elstu tvö börnin, Mikkalína Arí og Matthías Hrólfur, fæddust er Jóhanna og Pálmi bjuggu í Rekavík og sonur Jóhönnu bjó þar einnig hjá þeim. Jóhanna fæddi Matthías á Ísafirði og hún og María, systir Pálma, fluttu hann í þvottabala þaðan til Látra og síðan til Rekavíkur. Tvær fjölskyldur bjuggu í húsinu í Rekavík. Guðmundur og hans börn, sem ennþá voru heima, ásamt ráðskonu hans Bjarneyju og svo Jóhanna og Pálmi og þeirra börn. 

Þriðja barnið fæddist svo þegar þau bjuggu í Álftafirði. Húsnæðið í Álftafirði var slæmt og segir Jóhanna að snjór og klaki hafi verið við rúmin.

Elísabet María Pálmadóttir lýsir föður sínum þannig:

Hann var yndislegur faðir og ég hefði viljað svo gjarnan að börnin mín hefðu fengið að kynnast honum. Hann vildi hafa hlutina í röð og reglu. Hann var oft að heiman á vertíðum en gaf sér alltaf tíma fyrir okkur þegar hann var heima við. Hann las fyrir okkur, spilaði á munnhörpuna sína og stríddi okkur í gamni, hafði yndi af harmonikkutónlist. Eftir að Ingi, sonur hans, varð fullorðinn og hafði eignast sína eigin harmonikku þá sátu þeir oft við að spila og fékk pabbi þá að taka í nikkuna. Hann var stríðinn en ljúfur og vann verk sín vel. Ég man vel eftir þegar hann kvaddi í síðasta sinn. Hann stóð við herbergisdyrnar í gallabuxum og lopapeysu og kvaddi okkur öll. Matti bróðir átti að fara á sjóinn þessa nótt á öðrum bát en var slæmur af tannpínu. Pabbi snéri aftur eftir að hann hafði yfirgefið húsið til þess að sækja úlpuna sína og hafði á orði að sér hafi verið svo kalt í sjóferðinni þar á undan. Ég horfði á eftir bátnum sigla út þennan morgun.

                                                ------------------

Pálmi var einn þeirra sem hneig við skyldustörfin örlagaríkan dag í október 1964, þegar tveir bátar fórust, sama daginn frá litla fiskimannaþorpinu á norðanverðum Vestfjörðum. Hann fórst með mb. Mumma frá Flateyri. Hann hafði verið ráðinn á annan bát en ætlaði aðeins tvo róðra á mb. Mumma í forföllum annars manns.

 

 

 

 

Google Translator

:)

Recent Forum Posts

No recent posts